Enn við sama heygarðshornið.

Steingrímur J hefur nú á liðnu sumri margoft varað þjóðina við því að mála skrattann á vegginn og að gera meira úr málum en ástæða er til og menn ættu ekki að tala eins og hér sé allt á heljarþröm. Ég held að sá ágæti maður ætti að hlusta á sín eigin orð sé honum einhver meining með þeim og hætta þessum hræðsluáróðri sem honum er svo tamt að grípa til í hvert skipti sem Icesave málið er nefnt á nafn.

Stærstu mistök Steingríms J voru að keyra í gegn hjá flokksráði Vg þá eftirgjöf sem gerð var í ESB málinu í aðdraganda stjórnarsáttmálans við Samfylkinguna og þannig koma sér og þingmönnum flokksins í þá stöðu að ef ESB frumvarpið færi ekki í gegnum þingið með stuðningi þingmanna Vg þá mundi Samfylkingin slíta stjórnarsamstarfinu því það voru hótanir sem fóru illa í grasrót Vg. Icesave málið er af sama meiði það verður nefnilega að nást í gegn um alþingi samningur um það mál í góðri sátt við Hollendinga og Breta efað ESB aðildarumsóknin á að fá einhvern hljómgrunn hjá þessum þjóðum og reyndar einnig hjá öðrum ESB þjóðum. Steingrímur j einfaldlega vanmat viðbrögð grasrótarinnar í Vg til þessara tveggja mála. Þau voru önnur en hann hafði reiknað með og var undarskriftin á Icesave samningnum gerð án þess að hafa fullvissu um að þingflokkur Vg væri allur með honum í því máli. Sennilega var einnig hugsunin að að tala þá þingmenn til sem málinu voru andvígir rétt eins og í ESB málinu og þá undir hótunum um stjórnarslit. Það var reyndar imprað á því af hálfu Samfylkingarinnar um tíma en í þetta skiptið voru þingmenn Vg ekki hýddir til hlýðni, þeir hafa seinlega áttað sig á því að þeir áttu mikinn stuðning meðal eigin félagsmanna í andstöðu sinni við Icesave málið rétt eins og í ESB málinu og það nógan til að þeir spyrntu við fótum og létu ekki hóta sér.

Í aðdraganda atkvæðagreiðslunnar um Icesave málið og þá fyrirvara sem alþingi setti nú í síðasta mánuði sagði Steingrímur J að það væri afdráttarlaust að ef Hollendingar og Bretar höfnuðu fyrirvörunum þá væri málið komið að nýju inn á borð þingsins, því þá væri engin ríkisábyrgð til staðar fyrir málinu. Sú fullyrðing hans var afdráttarlaus og ekki hægt að misskilja á nokkurn hátt, því vil ég ekki trúa því fyrr en á reynir að um einhverja aðra túlkun geti verið að ræða á þessum fyrirvörum nú en þegar þeir voru til umræðu á alþingi og að hægt sé að semja sig að þeim við Hollendinga og Breta án aðkomu alþingis, það væri gróft brot á stjórnarskrá. Ríkisstjórnin getur einfaldlega ekki túlkað fyrirvarana á annan veg en þann sem um ræðir í lögunum án aðkomu alþingis. Verði það reynt er úti um allan þann litla frið sem þessi ríkisstjórn enn hefur og ekki langt í að blásið verður til annarrar búsáhaldabyltingar á Austurvelli í líkingu við þá sem kom fyrri stjórnarherrum frá og ég er hræddur um að sú bylting verði engu vægari í garð þeirra flokka sem nú mynda ríkisstjórn Íslands en þeirra sem áður mynduðu ríkisstjórn Íslands. 


mbl.is Upplausn hér verði Icesavelögum hafnað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það verða engir pottar né nokkrar pönnur í þeirri byltingu, ef til hennar kemur.

Skorrdal (IP-tala skráð) 6.9.2009 kl. 04:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband