ASÍ - Samfylikngin og ESB. / grein birtist í mbl 24/5 2009.

ASÍ - Samfylkingin og ESB.

 

Ég hef velt því fyrir mér hvað það er sem rekur áfram forystu ASÍ með Gylfa Arnbjörnsson í broddi fylkingar í að tala fyrir aðild Íslands að ESB og það með slíkum ákafa og raun ber vitni. Hann var ekki fyrr komin í stól forseta ASÍ en hann hóf herferð um landið til að boða ágæti ESB.

Ég get ekki fljótt á litið séð að það sé mikill munur á þeim boðskap og þeim sem Samfylkingin boðar landsmönnum um ágæti ESB, en skildi það kannski vera vegna þess að hann og fleiri forystumenn verkalýðshreyfingarinnar sem eru honum samsinnis eru sagðir tilheyra svo kölluðum verkalýðsarmi Samfylkingarinnar.

Mér er ekki kunnugt um að félagsmenn þeirra stéttafélaga sem heyra undir ASÍ hafi falið honum né öðrum stjórnendum þeirra þetta verkefni. Ég hallast reyndar að því að þar fari saman draumur ýmissa verkalýðsleiðtoga og Samfylkingarinnar um að málefnum verkalýðshreyfingarinnar verði fyrir komið hér á Íslandi líkt og í Svíþjóð, þar sem varla er hægt að greina á milli hvað er Sosialdemokrata flokkurinn og hvað er  LO.  Þar í landi á enginn möguleika á að komast til áhrifa innan verkalýðshreyfingarinnar ef hann tilheyrir ekki Sosialdemokrata flokknum.

Á sama tíma og ASÍ og Samfylkingin sjá ekkert nema velsæld til handa íslenskri alþýðu í fangi ESB þá eru félagar þeirra í Svíþjóð að upplifa raunveruleikann.

Það kom mér því skemmtilega á óvart að lesa ýmsar þær greinar sem eru að finna á heimasíðu sænska sosialdemókrata flokksins sem varða ESB og hvaða málefni þeim er efst í huga fyrir komandi kosningar til Evrópu þingsins. Þar ber einna hæst hvernig komið er fyrir sænskum launþegum og atvinnurekendum í samkeppni þeirra við láglaunalöndin í ESB og þeirri verkalýðspólitík sem ESB hefur rekið, en fyrirtæki frá þessum löndum hafa í auknum mæli komið til Svíþjóðar og undirboðið verk með launakjörum sem tíðkast í heimalandi fyrirtækisins og skekkja þar með samkeppnishæfni sænskra fyrirtækja og launþega. Slík undirboð hafa einnig átt sér stað í Þýskalandi og í Bretlandi og reyndar víðar í aðildarlöndum ESB. Sænskum fyrirtækjum er að sjálfsögðu gert að fara eftir sænskum launatöxtum.

Vaxhólmsmálið svo kallaða í Svíþjóð þar sem sænska Byggnads átti í höggi við lettneska byggingaverktakann Laval un Partneri og dótturfyrirtæki þess Baltic AB sem greiddu laun langt undir Sænskum töxtum , varð að prófmáli og fór fyrir Evrópudómstólinn. Niðurstaða dómsins var sú að bannað væri að setja höft á frjálst flæði atvinnustarfsemi fyrirtækja eins og Laval á milli landa innan ESB.  Laval er eitt þeirra fyrirtækja sem hafa iðkað þetta.

Komið hafa upp önnur sambærileg mál, svo sem  Rüffert málið í Nidersachen í Þýskalandi og annað nýlegt mál í olíuvinnslustöð hjá fyrirtækinu Total í bænum Lindsey nærri Immingham í Bretlandi og einnig mál írskra ferju sjómanna sem sagt var upp störfum svo hægt væri að ráða pólska sjómen á munn lakari kjörum, svo nokkur séu talin.

Slík mál geta hæglega komið upp hérlendis ef af inngöngu okkar í ESB verður, eða manst þú lesandi góður ekki eftir umræðunni um launamál Impreglio á sínum tíma, eða man nokkur eftir fyrirtækinu sem átti lægsta tilboðið í skólabygginguna hjá Reykjavíkurborg fyrir ekki svo löngu, var það fyrirtæki ekki eimmitt frá Lettlandi.

Nú ætla ég ekki að fullyrða að það fyrirtæki hafi ætlað sér neitt misjafnt hér en með hliðsjón af því hvernig mál hafa þróast í ESB, þá er ekki hægt að útiloka að fyrirtæki frá þessum láglauna löndum sjái sér hag í að koma hingað með starfsemi sína og starfskrafta frá heimalandinu og þá á mun verri kjörum en hér hafa tíðkast. Það myndi einnig verða til þess að raska samkeppnishæfni  íslenskra fyrirtækja og launþega og þar með hafa  áhrif á starfsöryggi þeirra eins og gerst hefur í áður nefndum  ESB löndum og reyndar víðar innan sambandsins. Mér er því ómögulegt að skilja að þessi ógn sem steðjar að verkalýðshreyfingunni í ESB löndununum og sem flokkbræður Gylfa í Svíþjóð og LO óttast svo mjög, skuli ekki valda honum og öðrum verkalýðsfrömuðum meiri áhyggjum en raun ber vitni, alla vega sjá þeir ekki ástæðu til að nefna þetta í málflutningi sínum þegar þeir tala fyrir ESB aðild og er þó full ástæða til.

Því er mér spurn hafa þeir þá engar áhyggjur af þessari þróun? Það væri fróðlegt að fá svör við því.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband