Bloggfærslur mánaðarins, maí 2009

Starfsemi Lýsi HF í Þorlákshöfn.

Lýsi vill refsa skipulagsfulltrúa Ölfuss

mynd

Lýsi hf. vill refsa skipulags- og byggingafulltrúa fyrir að segja Þorlákshöfn anga af lýsi.

Lýsi hf. hefur krafist þess að ummæli sem Sigurður Jónsson, skipulags- og byggingafulltrúi Ölfuss, lét falla í viðtali við hádegisfréttir RÚV í apríl síðastliðnum verði dregin til baka og á þeim beðist afsökunar. Þá krefst fyrirtækið þess einnig að hann verði áminntur fyrir brot í starfi.

Tilefni ummæla Sigurðar var vegna þess að bæjarstjórnin felldi starfsleyfi Lýsis úr gildi. Ástæðan var mikil lykt sem leggur af verksmiðjunni. Við það tækifæri sagði Sigurður meðal annars:

„Að lyktin festist í bílum og fötum fólks og lokist inni í mannvirkjum. Leiðinlegt sé að ekki sé líft í bænum á hátíðum. Í fermingarveislum nú um páskana hafi fólki þurfi að hafa gesti í ákveðnum hlutum húsa sinna til að fá ekki umtal um fýluna í veislunni. Fólk búi við það að geta ekki opnað glugga og þurfi að sofa með glugga lokaða út af þessu. Um helgar séu yfirfylltir allir þurrkklefar og þá verði fýlan óvenju sterk. Fólk geti ekki notið sín í norðanátt sem sé helsta sólarátt í bænum."

Umhverfisráðuneytið úrskurðaði að ekki mætti fella starfsleysi Lýsis úr gildi sökum meðalhófsreglunnar og í kjölfarið leitaði Lýsi réttar síns. Juris almenna Lögfræðistofan lagði inn kröfu þess eðlis í bæjarstjórn Ölfuss. Bæjarstjórnin samþykkti samhljóða stuðning við Sigurð vegna málsins.

Þetta leiðinda mál og starfsemi Lýsis HF hér í bæ hefur hrjáð íbúa Þorlákshafnar um langt skeið. Þrátt fyrir andstöðu sveitafélagsins og íbúa þess þá hefur Lýsi HF fengið framlengingu á starfslefi sýnu frá Heilbrigðisstofnun Suðurlands til 8 ára. Hefur stofnunnin í engu hlustað á rök íbúanna og hefur forstöðumaður hennar ekki séð sér fært að koma á íbúafund til að útskýra ákvörðunartöku sína heldur valið þá leið að svara umkvörtunum íbúanna gegnum lögfræðinga. Umæli Sigurðar eru ein af fjölmörgum sem höfð hafa verið um þetta mál í fjölmiðlum og hefur Lýsi HF ávalt svarða með hótunum um málsókn, í stað þess að hlusta á Íbúa sveitafélagsins og reina að komast að ásættanlegri niðurstöðu. Ég skrifaði Kolbrúnu Halldórsdóttur þáverandi umhverfisráðherra bréf varðandi þetta mál eftir að hún tók þá ákvörðun að staðfesta starfsleyfi Lýsis HF og læt svar hennar fylgja með hér að neðan til fróðleiks.

 

 

Date: 23. apríl 2009 23:23

Komið þið sæl Rafn, Guðmundur, Anna Lísa og Hafsteinn.Vonandi misvirðið þið það ekki við mig þó ég svari ykkur öllum í einum pósti. Ég bið ykkur öll að fyrirgefa hversu lengi það hefur dregist hjá mér að svara póstunum ykkar, en með nýjasta póstinum frá Rafni (sem kom í dag) fékk ég það spark sem ég þurfti til að svara loksins. Það er afar leiðinlegt og lýjandi að berjast fyrir rétti sínum til heilsusamlegs umhverfis, það þekki ég af eigin raun. Barátta við kerfið gleypir bæði tíma og orku. Þið eruð ekki öfundsverð að þurfa að standa í slíkri baráttu og mig langar að segja hreinskilnislega að ég hef fullan skilning á reiði ykkar yfir þeim óbærilegu óþægindum sem þið hafið lýst fyrir mér. Þegar ég kom í ráðuneytið tók ég strax að reka á eftir því að þessi úrskurður yrði kláraður og beitti nokkrum þrýstingi á lokasprettinum. Þegar mér barst í hendur niðurstaða lögfræðinga ráðuneytisins varð ég nokkuð hugsi og spurði í þaula um lykilatriði í niðurstöðunni. Eftir að hafa farið gaumgæfilega yfir öll atriðin komst ég að þeirri niðurstöðu að ekki væri hægt að ganga lengra en lögfræðingarnir lögðu til, engu að síður óskaði ég eftir að skerpt yrði á nokkrum atriðum, sem var gert.Ég er ekki sammála ykkur um að með úrskurðinum sé fyrirtækinu heimilt að halda áfram að spúa út ýldufýlu yfir íbúa Þorlákshafnar, þvert á móti. Úrskurðurinn þrengir starfsleyfið til muna og setur ný skilyrði inn í það. Hér eftir verður ófrávíkjanleg regla að allt hráefni sem unnið er sé ferskt og komi til fyrirtækisins ísað í heilum körum. Hráefnið verður að taka til vinnslu svo fljótt sem auðið er og ekki má vinna eldra hráefni en fjögurra daga gamalt. Þá leggur úrskurðurinn Lýsi hf. á herðar að koma hreinsibúnaði fyrir við niðurföll og vistun á óhreinum ílátum verður óheimil innan dyra og utan. Allt þetta ætti að draga mjög úr lyktarmengun. Úrskurðurinn leggur líka skyldur á herðar Heilbr.eftirlitsins, sem þið treystið greinilega ekki, en ef þið hafið enn ástæðu til að ætla að menn þar standi ekki undir þeim skyldum, þá verðið þið að halda áfram að leggja fram kvartanir. Og munið að þið hafið sveitarfélagið með ykkur í málinu. Ég minni líka á að í úrskurðinum er endurskoðunarákvæði þannig að leyfið verður að endurskoða með tilliti til lyktarmengunar eigi síðar en fjórum árum eftir útgáfu þess. Þá er ég komin að því atriði í úrskurðinum sem mér finnst vega þyngst. Það varðar stöðuna sem upp kemur ef úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála staðfestir synjun sveitarfélagsins um byggingarleyfi þvotta- og þéttiturna (mengunarvarnarbúnaðarins) sem Lýsi hf. sótti um. Ef úrskurðarnefndin staðfestir synjun sveitarfélagsins, þá er málið á núll-punkti og ég fæ ekki betur séð en að að þá verði að hætta starfsrækslu verksmiðjunnar. Því mengunarvarnarbúnaðurinn í turnunum er, eins og ég skil málið, forsenda fyrir því að lyktarmengunin hverfi úr byggðinni. Ég sé því ekki betur en að þið þurfið að sýna biðlund fram að því að úrskurðarnefndin fellir sinn úrskurð, því með þeim úrskurði verður ljóst hvort hægt verður að uppfylla skilyrði starfsleyfisins eða ekki. En ef nefndin heimilar byggingu turnanna þá ætti vandamálið að hverfa, sérstaklega þegar við bætast þessi nýju skilyrði sem komu með úrskurði umhverfisráðuneytisins, þá mun draga úr lyktarmengun eins og mögulegt er og ef heilbrigðiseftirlitið stendur sig í stykkinu þá ætti starfsemin ekki að valda mengun af því tagi sem hún hefur gert hingað til. Svona lít ég nú á málin og vona ég að þessar skýringar hafi eitthvað að segja varðandi afstöðu ykkar. Ég vil svo að þið vitið að ég er tilbúin að heimsækja ykkur við fyrsta tækifæri og vona sannarlega að slíkt tækifæri gefist sem allra fyrst.  Vona líka að ég verði þá enn umhverfisráðherra og fái tækifæri til að sjá þetta leiðindamál leitt til lykta með farsælum hætti.

 

Kær kveðja

Kolbrún Halldórsdóttir

 


Bensín hækkanir.

Með þessu áframhaldi hefur fólk ekki lengur efni á að sækja vinnu sína. Eigin kona mín keyrir frá Þorlákshöfn til Reykjavíkur daglega til sinnar vinnu eða rúma 100 km á dag, en með þessu áframhaldi hefur hún vart efni á að reka bíl með öllum þeim hækunum sem orðið hafa. Þetta bjargar vart heimilunum eða hvað.
mbl.is Bensínlítrinn í 181 krónu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ASÍ - Samfylikngin og ESB. / grein birtist í mbl 24/5 2009.

ASÍ - Samfylkingin og ESB.

 

Ég hef velt því fyrir mér hvað það er sem rekur áfram forystu ASÍ með Gylfa Arnbjörnsson í broddi fylkingar í að tala fyrir aðild Íslands að ESB og það með slíkum ákafa og raun ber vitni. Hann var ekki fyrr komin í stól forseta ASÍ en hann hóf herferð um landið til að boða ágæti ESB.

Ég get ekki fljótt á litið séð að það sé mikill munur á þeim boðskap og þeim sem Samfylkingin boðar landsmönnum um ágæti ESB, en skildi það kannski vera vegna þess að hann og fleiri forystumenn verkalýðshreyfingarinnar sem eru honum samsinnis eru sagðir tilheyra svo kölluðum verkalýðsarmi Samfylkingarinnar.

Mér er ekki kunnugt um að félagsmenn þeirra stéttafélaga sem heyra undir ASÍ hafi falið honum né öðrum stjórnendum þeirra þetta verkefni. Ég hallast reyndar að því að þar fari saman draumur ýmissa verkalýðsleiðtoga og Samfylkingarinnar um að málefnum verkalýðshreyfingarinnar verði fyrir komið hér á Íslandi líkt og í Svíþjóð, þar sem varla er hægt að greina á milli hvað er Sosialdemokrata flokkurinn og hvað er  LO.  Þar í landi á enginn möguleika á að komast til áhrifa innan verkalýðshreyfingarinnar ef hann tilheyrir ekki Sosialdemokrata flokknum.

Á sama tíma og ASÍ og Samfylkingin sjá ekkert nema velsæld til handa íslenskri alþýðu í fangi ESB þá eru félagar þeirra í Svíþjóð að upplifa raunveruleikann.

Það kom mér því skemmtilega á óvart að lesa ýmsar þær greinar sem eru að finna á heimasíðu sænska sosialdemókrata flokksins sem varða ESB og hvaða málefni þeim er efst í huga fyrir komandi kosningar til Evrópu þingsins. Þar ber einna hæst hvernig komið er fyrir sænskum launþegum og atvinnurekendum í samkeppni þeirra við láglaunalöndin í ESB og þeirri verkalýðspólitík sem ESB hefur rekið, en fyrirtæki frá þessum löndum hafa í auknum mæli komið til Svíþjóðar og undirboðið verk með launakjörum sem tíðkast í heimalandi fyrirtækisins og skekkja þar með samkeppnishæfni sænskra fyrirtækja og launþega. Slík undirboð hafa einnig átt sér stað í Þýskalandi og í Bretlandi og reyndar víðar í aðildarlöndum ESB. Sænskum fyrirtækjum er að sjálfsögðu gert að fara eftir sænskum launatöxtum.

Vaxhólmsmálið svo kallaða í Svíþjóð þar sem sænska Byggnads átti í höggi við lettneska byggingaverktakann Laval un Partneri og dótturfyrirtæki þess Baltic AB sem greiddu laun langt undir Sænskum töxtum , varð að prófmáli og fór fyrir Evrópudómstólinn. Niðurstaða dómsins var sú að bannað væri að setja höft á frjálst flæði atvinnustarfsemi fyrirtækja eins og Laval á milli landa innan ESB.  Laval er eitt þeirra fyrirtækja sem hafa iðkað þetta.

Komið hafa upp önnur sambærileg mál, svo sem  Rüffert málið í Nidersachen í Þýskalandi og annað nýlegt mál í olíuvinnslustöð hjá fyrirtækinu Total í bænum Lindsey nærri Immingham í Bretlandi og einnig mál írskra ferju sjómanna sem sagt var upp störfum svo hægt væri að ráða pólska sjómen á munn lakari kjörum, svo nokkur séu talin.

Slík mál geta hæglega komið upp hérlendis ef af inngöngu okkar í ESB verður, eða manst þú lesandi góður ekki eftir umræðunni um launamál Impreglio á sínum tíma, eða man nokkur eftir fyrirtækinu sem átti lægsta tilboðið í skólabygginguna hjá Reykjavíkurborg fyrir ekki svo löngu, var það fyrirtæki ekki eimmitt frá Lettlandi.

Nú ætla ég ekki að fullyrða að það fyrirtæki hafi ætlað sér neitt misjafnt hér en með hliðsjón af því hvernig mál hafa þróast í ESB, þá er ekki hægt að útiloka að fyrirtæki frá þessum láglauna löndum sjái sér hag í að koma hingað með starfsemi sína og starfskrafta frá heimalandinu og þá á mun verri kjörum en hér hafa tíðkast. Það myndi einnig verða til þess að raska samkeppnishæfni  íslenskra fyrirtækja og launþega og þar með hafa  áhrif á starfsöryggi þeirra eins og gerst hefur í áður nefndum  ESB löndum og reyndar víðar innan sambandsins. Mér er því ómögulegt að skilja að þessi ógn sem steðjar að verkalýðshreyfingunni í ESB löndununum og sem flokkbræður Gylfa í Svíþjóð og LO óttast svo mjög, skuli ekki valda honum og öðrum verkalýðsfrömuðum meiri áhyggjum en raun ber vitni, alla vega sjá þeir ekki ástæðu til að nefna þetta í málflutningi sínum þegar þeir tala fyrir ESB aðild og er þó full ástæða til.

Því er mér spurn hafa þeir þá engar áhyggjur af þessari þróun? Það væri fróðlegt að fá svör við því.

 

 


Vaxholms málið:

Vaxholms málið:

Bæjar félagið Vaxholm í Svíþjóð ákvað árið  2004 Að fara í endurbyggingu á skólahúsnæði í bænum, gerð voru tilboðs gögn þar sem meðal annars var kveðið á um þau fyrirtæki sem áhuga hefðu á að gera tilboð í verkið skyldu skrifa undir samning við Byggnads um launakjör og aðbúnað (kollektivavtal) en  það var hinn almenna regla á sænskum vinnu markaði. Lettneska fyrirtækið Laval un Partneris átti lægsta boðið í verkið og fékk það.  Laval hefur þegar þetta var þegar starfað á sænskum byggingamarkaði um nokkurt skeið en þá í gegnum dótturfélag þess sem hét Baltic AB og á árunum 2002/03 hafði það veltu upp á 20 milljónir sænskra króna.  Baltic AB hóf síðan störf við endurbyggingu skólans sem undirverktaki fyrir hönd Laval un Partneri en í júní árið 2004 hefur svo Byggettan samband við Baltic AB og fer fram á að þeir skrifi undir launasamninga við þá eða svo kallaðan hangandi samning (hängaftal) en það var vaninn í svona tilfellum. Byggettan kemst fljótt að því að Baltic AB hafði ekki áhuga á slíkum samningi þó að þeir hafi áður undirgengist því við tilboðið að slíkt skyldi gert, að lokum býðst þó Baltic AB til að greiða 109 skr. á tímann, en gildandi laun á þeim tíma á Stokkhólms svæðinu voru 149 skr. Í september sama ár slitnar svo upp úr samningaviðæðum við Baltic AB og í nóvember sama ár er fyrirtækið sett í „frost" (blockad) það er að segja að engir félagsmenn annarra verkalýðsfélaga vilja  þjónusta  fyrirtækið.  Útilokunin stóð í einar 7 vikur og um jólin 2004 hætti Baltic AB störfum við skólabygginguna og fer til Lettlands.  Þetta mál fór síðan fyrir sænska vinnudómstólinn sem dæmdi Byggnads í fullum rétti í þessum átökum. Það þótti nokkuð athyglisvert  að tveir af lögfræðingum Laval voru kostaðir af sænska vinnumálasambandinu en á þessum tíma var fyrirtækið ekki félagi í þeim samtökum. Eins og áður sagði þá dæmdi  vinnudómstóllinn Byggnads í vil, en þar sem dómararnir voru ekki einhuga í dómi sínum var ákveðið að sækja eftir áliti frá Evrópudómstólnum og settu fulltrúar LO sig ekki upp á móti því.  Niðurstaða dómstólsins var sú að heimilt var að greiða laun samkvæmt lettneskum launasamningum þó svo unnið væri í Svíþjóð. Forsenda dómsins er sú að þjónustu fyrirtækja og vinnuafl skal geta farið óhindrað og án hafta innan ESB og þá án afskipta stéttarfélaga í viðkomandi landi og án þess að þurfa að gangast undir kjarasamninga viðkomandi lands. Málalok þessa máls hafa set af stað mikið umrót á meðal sænskra verkalýðshreyfingarinnar sem finnst gróflega vegið að launþegum landsins og að það ógni velferð sænskra launþega. Nú í aðdraganda kosninganna til ESB þingsins þá er þróun þessara mála mótmælt harðlega af sænska sósisldemókrata flokknum og þess krafist að afstöðu ESB til þessa máls  verði breitt eins og má sjá á heimasíðu flokksins. 

Sjá slóða. http://www.socialdemokraterna.se/Webben-for-alla/EU/maritaulvskog/MediaKontakt/Artiklar/EU-kommissionens-ordforande-bor-avga/

 


3 ára keypti skurðgröfu á netinu.

Þetta er skondin frétt af 3 ára dömu í framkvæmda hug, það er einsgott að fylgjast með hvað börnin aðhafast á netinu.
mbl.is 3 ára keypti skurðgröfu á netinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ESB umsókn eða ekki

Um  ESB og Vinstri hreyfinguna-grænt framboð.

 

Á landsfundi Vinstri hreyfingarinnar-græns framboðs í mars síðastliðnum var samþykkt ályktun um að Íslandi væri betur komið fyrir utan ESB en í ályktuninni segir orðrétt.

Vinstrihreyfingin - grænt framboð telur nú sem fyrr að hagsmunum Íslands sé best borgið utan Evrópusambandsins.  Sjálfsagt er og brýnt að fram fari opin og lýðræðisleg umræða um samskipti Íslands og sambandsins. Landsfundur VG leggur áherslu á að aðild íslands að ESB eigi að leiða til lykta í þjóðaratkvæðagreiðslu. Landsfundur telur mikilvægt að fyrirkomulag þjóðaratkvæðagreiðslu fái rækilega umræðu og að hliðsjón verði höfð af væntanlegum stjórnarskrábreytingum og hvað eðlilegt getur talist þegar afdrifaríkar ákvarðanir eru teknar um framsal og fullveldi.

Nú í samningaviðræðum Vinstri Grænna og Samfylkingar bregður hinsvegar svo við að ákveðið er að leggja aðildar umsókn fyrir alþingi til ákvörðunar með fulltingi VG.

Einnig var gefin út yfirlýsing af hálfu formanns Vinstri Grænna að flokkurinn færi óbundin í þá atkvæðagreiðslu og að þingmenn flokksins myndu greiða atkvæði eftir sannfæringu sinni. Þetta þykir mér heldur loðin svör svo ekki sé meira sagt. Hvað var verið að samþykkja á landsfundinum í mars varðandi afstöðu flokksins til ESB?  Ef ekki á að taka afgerandi afstöðu í þingflokknum með hliðsjón af stefnu hans og samþykktar landsfundarins í þessu máli þá þykir mér fokið í flest skjól og verið að hafa ályktun landsfundarins að engu.

Það er nú að koma í ljós að einhverjir þingmenn VG  telji sig ekki bundna af þessari ályktun og er ekki annað að heyra í fréttum en að formaðurinn sé því samþykkur.

Vinstri Grænir gáfu út yfirlýsingar fyrir kosningarnar í síðasta mánuði í þá veru að flokkurinn myndi í engu hvika frá stefnu sinni varðandi ESB. Því var haldið á lofti svo að ekki var um að villast að flokkurinn myndi ekki að selja sig í þessu máli. Það er einnig ljóst að VG fékk verulegt fylgi í síðustu kosningum út á þá yfirlýsingu.

Ég sem félagi og stjórnarmaður í félagi Vinstri Grænna í Ölfusi og Hveragerði krefst þess að flokksforystan  og þingmenn gangi hreint til verks og skýri afstöðu sína fyrir okkur félagsmönnum sem höfum starfað fyrir félagið í þeirri góðu trú að flokkurinn stæði við gefnar yfirlýsingar.

 Ég mun líta svo á að ef einhverjir þingmenn VG ætla sér að sitja hjá við væntanlega atkvæðagreiðslu og ef að það verður til þess að af aðildarumsókn verður samþykkt í þinginu þá mun ég líta svo á að um svik við stefnu flokksins sé að ræða og þá kjósendur sem kusu VG á forsendum fyrri yfirlýsinga hans í garð ESB.

Ég hef þá trú að margur ESB andstæðingurinn muni eiga erfitt með að kyngja slíkri niðurstöðu og tel reyndar að veruleg hætta sé á að það geti leitt til alvarlegs klofnings innan raða VG ef sú yrði raunin.

Ég ætla því að vona að þingmenn Vinstri Grænna hafi það í huga að þegar að atkvæðagreiðslu kemur.

 

 

 

 

 

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband